„Erum bara drullusvekktir“

Jónatan Þór Magnússon.
Jónatan Þór Magnússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var hörkuleikur. Við byrjuðum virkilega illa en komum okkur flott inn í leikinn,“ sagði Jónatan Magnússon, annar þjálfari KA, eftir 36:34 tap gegn Selfossi á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

KA menn byrjuðu reyndar það illa að þjálfararnir tóku fyrsta leikhléið þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af leiknum.

„Það var eitthvað ekki eins og það átti að vera. Við ákváðum bara að taka hlé strax. Strákarnir voru ekki eins og við vildum hafa þá, en þeir mega eiga það að þeir svöruðu því og komu til baka. Sóknarlega vorum við fínir, við skorum nítján mörk í fyrri hálfleik en fáum jafn mörg á okkur. Selfoss skorar að ég held fjórtán mörk í fyrri hálfleik úr hraðaupphlaupum eða þegar við erum í undirtölu. Þannig að það segir sig sjálft að við hefðum þurft að halda okkur betur inni á,“ sagði Jónatan enn fremur en KA menn fengu átta brottvísanir í leiknum, mun fleiri en Selfoss.

„Já, við erum rosalega mikið út af. Það hlýtur að vera það að við náum ekki að aðlaga okkur línunni hjá dómurunum. Við töluðum um það í hálfleik að við ætluðum að reyna að halda okkur inni á vellinum. Við gerum okkur t.d. seka um mjög dýra brottvísun fyrir tuð og það kostar í svona leik,“ sagði Jónatan.

En hallaði á ykkur í dómgæslunni?

„Örugglega ekki. Maður upplifir það núna svoleiðis. Ég ætla ekki að pæla í því núna. Það voru ekki dómararnir sem klúðruðu þessu, við gerðum okkar mistök líka.“

Selfoss náði fimm marka forskoti í seinni hálfleik en KA gafst ekki upp og náði að minnka muninn í eitt mark á lokamínútunni.

„Við vorum allir af vilja gerðir. Það vantaði ekki upp á baráttuna, en kannski aðeins upp á klókindin. Við þurftum að reyna eitthvað og tókum Hauk úr umferð. Við vorum nálægt þessu, einni eða tveimur sóknum frá þessu en heilt yfir þá erum við bara drullusvekktir að hafa ekki tekið neitt úr þessu og haft betri stjórn á leiknum því við lögðum mikið í hann.

Þetta var svona „næstum því“. Við áttum góð áhlaup inn á milli en vorum líka sjálfum okkur verstir í klaufaskap. Þetta var örugglega fínasti handboltaleikur. Við erum nálægt þessu, en á móti Selfoss þá hefðum við þurft betri frammistöðu,“ sagði Jónatan að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert