„Alveg ótrúlegur endir“

Gunnar Líndal.
Gunnar Líndal. Ljósmynd/Þórir

„Mér fannst við betri stóran hluta af leiknum og áttum alveg skilið að vinna“ sagði sposkur Gunnar Líndal, þjálfari KA/Þórs í Olís-deild kvenna í handbolta eftir æsilegan leik KA/Þórs og Stjörnunnar í kvöld. KA/Þór skoraði sigurmark leiksins með skoti yfir allan völlinn á lokaandartökunum.

„Mér fannst að við hefðum átt að hafa meira en eitt mark í forskot í hálfleik. Við vorum samt að fá allt of margar brottvísanir sem skemmdi fyrir. Mér fannst við spila vel á stórum köflum.“

Hefur þú upplifað svona endi á leik áður?

„Nei, aldrei. Þetta gerist ekki oft og er þeim mun sætara. Við vorum búin að klúðra síðustu sókninni og hefðum getað tapað þarna í lokin. Þetta var alveg ótrúlegur endir.“

Fyrir utan þetta sigurmark. Hvað gleður þig helst eftir þennan leik?

„Það er fyrst og fremst að við höfum náð að leiða leikinn svona lengi, gegn mjög góðu liði Stjörnunnar. Við vorum yfir megnið af leiknum og héldum okkur í forustu þrátt fyrir mistök og óðagot í sókninni. Það er einnig jákvætt að koma með sigur eftir mjög erfiða törn þar sem við spiluðum þrjá útileiki á sjö dögum.“

Logi Geirsson er ekki sammála því að slíkt sé erfitt.

„Já, já einmitt. Ég er bara ánægður með þessa syrpu og að rísa aftur upp eftir hræðilegt tap í síðasta leik gegn Fram. Nú tekur bara við tveggja vikna hlé sem ég tek fegins hendi. Við getum alla vega farið að æfa handbolta aftur og getum farið aðeins yfir hlutina.“

Leikurinn var dálítið harður, alla vega var mikið um brottrekstra. Hvernig fannst þér dómgæslan?

„Ég var frekar ósáttur með suma brottrekstrana í fyrri hálfleik en svona allt í allt þá held ég að þetta hafi jafnast út. Ég get ekki séð að það hafi hallað á annan aðilann. Það var mikið um mistök og furðulegar ákvarðanir hjá leikmönnum“ sagði Gunnar ansi brattur.

Sigurmark KA/Þórs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert