„Reynum einhverja hluti sem við ráðum ekki við“

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var svekktur í leikslok.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var svekktur í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari karlaliðs Fram, var heldur brúnaþungur eftir tap sinna manna gegn Íslandsmeisturum Selfoss í Olísdeildinni í handbolta á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 30-24.

„Vörnin var léleg hjá okkur í fyrri hálfleik. Við náðum að jafna 18:18 í upphafi seinni hálfleiks og mínir menn virtust aðeins vera að rétta sig af. En eftir það töpum við ellefu boltum í seinni hálfleik sem er bara ekki boðlegt,“ sagði Guðmundur Helgi og bætti við að þessi saga væri ekki ný af nálinni hjá liðinu.

„Nei, þetta er ekkert nýtt hjá okkur. Við förum að reyna einhverja hluti sem við ráðum ekki við, í staðinn fyrir að halda í þá hluti sem við vorum að gera vel. Því miður fer þetta svona, tapaðir boltar og dauðafæri - við erum að klikka alveg hrikalega á góðum færum. Ef menn gera það sem upp er lagt þá virkar það. Svo koma svona kaflar alltof oft sem við förum fram úr okkur. Þegar við gerum svona á móti góðu liði eins og Selfossi þá refsa þeir bara og þá á maður ekki séns á móti þeim. Selfyssingar voru bara drullugóðir í dag og nýttu sér okkar mistök,“ sagði Guðmundur ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert