„Við fundum frábærar lausnir“

Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfyssinga.
Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfyssinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var frábært hjá okkur í kvöld, hugarfarið og varnarleikurinn var til fyrirmyndar,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, ánægður eftir 30:24 sigur gegn Fram í úrvalsdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld.

„Við urðum fyrir áfalli í byrjun leiks þegar við missum Árna Stein [Steinþórsson] meiddan af velli. Það skapar okkur ekki síst áskorun varnarlega. Við fundum frábærar lausnir á því og menn stigu upp og gengu í nýjar stöður. Árni Steinn er lykilmaður hjá okkur, í vörninni sérstaklega — og í sókninni sem örvhent skytta. En ég var mjög ánægður með strákana, menn sýndu úr hverju þeir eru gerðir og stigu upp, bæði varnar- og sóknarlega og það var frábært,“ sagði Grímur enn fremur.

„Það er eins hjá mér og öðrum liðum, það er vont að missa lykilmenn. En það sem er ljósið í myrkrinu er að það koma inn ungir strákar eins og Reynir [Freyr Sveinsson]. Hann greip tækifærið og þannig þroskast þessir strákar sem handboltamenn og breiddin okkar eykst að sama skapi,“ bætti Grímur við en hann vissi ekki hvers eðlis meiðslin hjá Árna Steini eru.

„Ég vona að þetta sé ekki alvarlegt. Ég hef ekkert talað við Árna eða Jónda sjúkraþjálfara. Við settum þetta alveg til hliðar. Hann var inni í klefa í hálfleik að kæla en við skoðum þetta betur á morgun og vonum það besta,“ sagði Grímur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert