Árni Steinn líklega með slitið krossband í hné

Árni Steinn Steinþórsson.
Árni Steinn Steinþórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Steinn Steinþórsson, einn af lykilmönnum Íslandsmeistara Selfoss í handbolta, verður líklega frá keppni næstu sjö til níu mánuðina en hann varð fyrir meiðslum á hægra hné í viðureign Selfyssinga og Framara í gær.

Árni Steinn varð fyrir meiðslunum strax á þriðju mínútu leiksins og kom ekkert meira við sögu í leiknum.

„Það bendir allt til þess að krossbandið hafi slitnað en það fæst úr því skorið á morgun þegar ég fer í myndatöku. Ég lenti illa eftir uppstökk. Ég heyrði smell og grunaði þá strax að krossbandið hefði slitnað. Það er ekki búið að staðfesta það en það er betra að undirbúa sig undir það frekar en að vera í einhverjum pollýönuleik,“ sagði Árni Steinn við mbl.is í dag.

Árni Steinn hefur áður slitið krossband.

„Ég leit krossband í vinstri hnénu þegar ég var tvítugur og maður hefur því prófað ýmislegt,“ sagði Árni Steinn sem hefur skorað 37 mörk í 10 leikjum Íslandsmeistaranna í Olís-deildinni á tímabilinu.

Ef svo er að krossbandið hafi slitnað hjá Árna Steini er það mikið áfall fyrir Selfyssinga enda er Árni í stóru hlutverki með liðinu í sókn og vörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert