Birgir Már tryggði annað stigið

Gunnar Valdimar Johnsen sækir að marki FH í kvöld. Ágúst …
Gunnar Valdimar Johnsen sækir að marki FH í kvöld. Ágúst Birgisson er til varnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Már Birgsson tryggði FH annað stigið gegn Stjörnunni í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld þegar liði mættust í lokaleik 10.umferðar deildarinnar í Kaplakrika. Birgir Már skoraði jöfnunarmark FH, 26:26, þegar fimm sekúndur voru til leiksloka í spennuþrungnum leik. Stjarnan var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13.

FH færðist upp í fimmta sæti deildarinnar með jafnteflinum. Liðið hefur nú 12 stig. Stjarnan er hinsvegar eftir sem áður í 10.sæti. Nú með sex stig.

Stjörnuliðið tók fljótlega völdin í leiknum við FH í Kaplakrika. Framliggjandi vörn liðsins sló vopnin úr höndum heimamanna auk þess sem Brynjar Darri Baldursson, fyrrverandi FH-ingur, varði sæmilega í markinu meðan kollegar hans í marki FH-liðsins voru ekki með á nótunum. Sóknarleikur Stjörnunnar var einnig markviss og skilaði marki í flestum sóknum. Leiðir liðanna skildi því fljótlega. Breytti engum þótt aðeins lifnaði yfir varnarleik FH þegar á hálfleikinn leið. Það dugði skammt þegar markvarslan var ekki fyrir hendi. Stjarnan var tveimur til fjórum mörkum yfir allt fram að hálfleik. Andri Þór Helgason skoraði 17.marks Stjörnunnar rétt áður en flautað var til hálfleiks. Mikilvægt, ekki síst þar sem Stjarnan hóf síðari hálfleik í sókn.

FH-ingar breyttu varnarleik sínum í upphafi síðari hálfleik. Þeir fóru í framliggjandi 3/2/1 vörn. Og þótt slík vörn hafi verið aðalsmerki Stjörnunnar í fyrri hálfleik þá virtust leikmenn liðsins ekki ráða við að mæta slíkri vörn af hálfu FH-inga. Heimamenn söxuðu jafnt og þétt á forskot Stjörnunnar uns þeir jöfnuðu, 21:21, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Skömmu síðar komst FH yfir, 23:22, í fyrsta sinn síðan snemma leiks. Í hönd fór spennuþrungnar lokamínútur þar sem jafnt var á öllum tölum.

Andri Þór Helgason kom Stjörnunni yfir þegar tæp hálf mínúta var eftir, 26:25. FH-ingar tóku leikhlé, lögðu á ráðin og Birgir Már Birgisson jafnaði metin þegar fimm sekúndur voru til leiksloka.

Ásbjörn Friðriksson og Einar Rafn Eiðsson voru markahæstir hjá FH með átta mörk hvor.

Andri Þór var markahæstur Stjörnumanna með sjö mörk. Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði sex mörk, öll í fyrri hálfleik. Hann meiddist á hné þegar um sjö mínútur voru til leiksloka og kom ekkert meira við sögu í leiknum. Eins meiddist Brynjar Darri markvörður Stjörnunnar.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að marki Stjörnunnar. Ari Magnús Þorgeirsson …
Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að marki Stjörnunnar. Ari Magnús Þorgeirsson er til varnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
FH 26:26 Stjarnan opna loka
60. mín. Andri Þór Helgason (Stjarnan) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert