„Eitt besta lið heims“

Haukur Þrastarson leikur í Póllandi á næstu leiktíð.
Haukur Þrastarson leikur í Póllandi á næstu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukur Þrastarson, landsliðsmaður í handbolta og einn efnilegasti leikmaður Evrópu, hefur skrifað undir þriggja ára samning við pólsku meistarana í Kielce, eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag.

Haukur, sem er aðeins 18 ára, er spenntur fyrir félagsskiptunum, en hann gengur í raðir pólska félagsins eftir leiktíðina hér heima. 

„Þeir sýndu mikinn áhuga á að fá mig og ég kíkti á þá, skoðaði aðstöðuna, átti samtöl við þjálfara og fleiri þarna úti og mér leist vel á og ég tel að það sé gott skref á mínum ferli að fara þangað,“ sagði Haukur í samtali við mbl.is. Honum leist vel á aðstæður hjá félaginu. 

„Ég er búinn að fara þangað tvisvar og mér leist mjög vel á allt. Það eru flottar aðstæður, mikil stemning á leikjum hjá þeim, góðir áhorfendur og toppþjálfarar. Hópurinn er ungur en mjög flottur.“

Haukur Þrastarson hefur stimplað sig inn í A-landsliðið að undanförnu.
Haukur Þrastarson hefur stimplað sig inn í A-landsliðið að undanförnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjálf­ari Kielce er hinn skrautlegi Tal­ant Dujs­heba­ev, sem meðal annars sló Guðmund Guðmundsson, núverandi landsliðsþjálfara Íslands, í punginn er þeir mættust á hliðarlínunni í Meistaradeild Evrópu árið 2014. Haukur ber honum hins vegar vel söguna. 

„Ég hef átt gott samtali við hann og hitt hann tvisvar. Það vita allir að þetta er toppþjálfari og ég efast ekki um að ég geti lært mikið af honum. Ég er mjög spenntur að fá að vinna með honum,“ sagði Haukur. 

Annar Selfyssingur, Þórir Ólafs­son, lék með liði Kielce frá 2011 til 2014. „Ég þekki Þóri mjög vel og hef unnið með honum. Það var gott að geta leitað til hans og við áttum gott spjall.“

Talant Dujshebaev þjálfar Kielce.
Talant Dujshebaev þjálfar Kielce. AFP

Haukur gerir þriggja ára samning við Kielce, en hvað ætlar hann að gera á þremur árum í Póllandi? 

Margir aðrir kostir

„Ég ætla fyrst og fremst að einbeita mér að því að klára tímabilið hér heima með Selfossi. Svo vil ég komast inn í liðið úti og stimpla mig inn. Þetta er krefjandi skref, ég geri mér grein fyrir því. Þetta er hörkulið og eitt það besta í heimi en markmiðið er að gera góða hluti með liðinu,“ sagði Haukur, sem viðurkennir að mörg félög hafi haft samband við sig. 

„Ég hafði mikið af spennandi möguleikum en eftir að ég fór út og kíkti á Kielce, þá leist mér mjög vel á. Það voru margir aðrir spennandi kostir en þetta er rétta skrefið fyrir mig,“ sagði Haukur. 

Kielce er ríkj­andi pólskur meist­ari en liðið hef­ur hampað meist­ara­titl­in­um átta ár í röð og hef­ur orðið bikar­meist­ari síðustu 11 árin. Liðið vann sig­ur í Meist­ara­deild Evr­ópu fyr­ir þrem­ur árum. Liðið er sem stendur í öðru sæti pólsku deildarinnar, þremur stigum á eftir Wisla Plock eftir ellefu umferðir. Þá er liðið í fjórða sæti í B-riðli Meistaradeildarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert