Haukur búinn að semja við Kielce

Haukur Þrastarson.
Haukur Þrastarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmaðurinn Haukur Þrastarson, leikmaður Íslandsmeistara Selfoss, mun ganga í raðir pólska stórliðsins Kielce næsta sumar en pólskir fjölmiðlar greina frá því að hann sé búinn að ganga frá þriggja ára samningi við félagið. Haukur var hjá Kielce í september þar sem hann skoðaði aðstæður og ræddi við forráðamenn félagsins.

Haukur er 18 ára gamall og er talinn vera eitt mesta efni í Evrópu en hann hefur spilað stórt hlutverk með liði Selfyssinga undanfarin ár og átti stóran þátt í að tryggja liðinu fyrsta Íslandsmeistaratitilinn síðastliðið vor þegar Selfoss vann Hauka í úrslitaeinvígi.

Haukur var valinn besti leikmaðurinn á EM 18 ára landsliða á síðasta ári þar sem Ísland endaði í öðru sæti og hann hefur smátt og smátt fengið stærra hlutverk með A-landsliðinu undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar.

Kielce er ríkjandi meistari en liðið hefur hampað meistaratitlinum átta ár í röð og hefur orðið bikarmeistari síðustu 11 árin. Liðið vann sigur í Meistaradeild Evrópu fyrir þremur árum.

Þjálfari Kielce er Talant Dujshebaev og með liðinu leika synir hans, Alex og Daniel. Einn af markvörðum liðsins er Þjóðverjinn Andreas Wolff og fleiri þekkt nöfn í liðinu eru spænski línumaðurinn Julen Aguinagalde, pólska stórskyttan Krzysztof Lijewski og króatíski leikstjórnandinn Igor Karacic.

Þess má geta að sveitungi Hauks, Þórir Ólafsson, lék með liði Kielce frá 2011 til '14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert