Sigvaldi búinn að semja við Kielce

Sigvaldi Björn Guðjónsson.
Sigvaldi Björn Guðjónsson. Ljósmynd/Elverum

Pólska meistaraliðið Kielce greinir frá því á heimasíðu sinni að landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson muni ganga í raðir félagsins næsta sumar en hægri hornamaðurinn spilar með norska liðinu Elverum.

Kielce hefur þar með tryggt sér tvo íslenska landsliðsmenn í þessari viku en frá því var greint í fyrradag að Selfyssingurinn Haukur Þrastarson muni fara til liðsins á næsta ári.

Sigvaldi er 25 ára gamall og er á sínu öðru ári hjá Elverum en þar áður lék hann með dönsku liðunum Århus Hånd­bold, Vejle og Bjerr­ing­bro/​Sil­ke­borg. Hann á að baki 20 leiki með íslenska A-landsliðinu og hefur í þeim skorað 37 mörk. Sigvaldi fetar í fótspor Þóris Ólafssonar en hann lék í hægra horninu með liðinu frá 2011 til 2014.

„Við erum mjög ánægðir að hafa gert samning við íslenska hornamanninn. Í fyrstu verður samningur hans til eins ár en við vonumst eftir að framlengja samninginn fljótlega. Við bindum miklar vonir við hann,“ segir Bertus Sarvaas, forseti Kielce, á heimasíðu félagsins.

Kielce hefur um árabil verið langbesta lið Póllands. Liðið hefur unnið meistaratitilinn 15 sinnum og 10 ár í röð og þá hefur liðið orðið bikarmeistari 16 sinnum. Þá vann liðið sigur í Meistaradeild Evrópu árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert