Fyrsti ósigur Norðmanna

Þórir Hergeirsson, þjálfari Noregs.
Þórir Hergeirsson, þjálfari Noregs. AFP

Norska kvennalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, tapaði í dag fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu í Japan en Holland vann úrslitaleik þjóðanna um efsta sæti A-riðilsins, 30:28.

Norska liðið virtist stefna í sinn fimmta sigur var yfir í hálfleik, 18:14, og þremur mörkum yfir eftir tíu mínútur í síðari hálfleik. Holland jafnaði í 23:23, komst í fyrsta skipti yfir, 26:25, þegar níu mínútur voru eftir og náði svo þriggja marka forskoti á lokakaflanum sem þær norsku réðu ekki við.

Lois Abbingh skoraði 6 mörk fyrir Holland, Danick Snelder og Estavana Polman 5 mörk hvor, en Stine Bredal Oftedal var langatkvæðamest hjá Norðmönnum með 8 mörk.

Holland og Noregur fengu þar með 8 stig hvort, og Serbar 6 stig en eftir sitja Angóla og Slóvenía með 4 stig og Kúba án stiga.

Holland fer því með 4 stig í milliriðilinn, Noregur 2 og Serbía ekkert en þar bætast við Suður-Kórea, Þýskaland og Danmörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert