Mótið vinnst ekki í september

Anton Rúnarsson í baráttunni við Arnar Frey Ársælsson, Ásbjörn Friðriksson …
Anton Rúnarsson í baráttunni við Arnar Frey Ársælsson, Ásbjörn Friðriksson og Ísak Rafnsson á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við mættum tilbúnir til leiks og það var virkilega sterkt að vinna FH-ingana í dag,“ sagði Anton Rúnarsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 29:28-sigur liðsins gegn FH í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld.

„Við erum með mikið sjálfstraust þessa dagana og erum á fínu skriði. Við höfum unnið mikið í ákveðnum hlutum sem voru kannski ekki alveg að virka í byrjun tímabilsins. Þeir eru hins vegar farnir að virka núna og ég er mjög ánægður með þann stað sem liðið er á í dag. Að sama skapi viljum við alltaf meira og nú er bara að halda áfram og byggja ofan á það sem við erum búnir að gera í undanförnum leikjum.“

Valsmenn voru með leikinn í hendi sér allan tímann og Anton viðurkennir að það sé mikið sjálfstraust í liðinu þessa dagana.

„FH-ingarnir komu alltaf til baka en vorum sterkir og við sýndum það í dag að við erum á betri stað en í upphafi tímabils. Þeir settu mikla pressu á okkur undir lokin en við náðum að landa þessum tveimur stigum og heilt yfir vorum við mjög flottir í bæði sókn og vörn. Markvarslan var frábær og það er flott ára yfir liðinu þessa stundina.“

Valsmenn byrjuðu tímabilið mjög illa en eru í dag komnir í þriðja sæti deildarinnar í 17 stig, sex stigum minna en topplið Hauka, sem á ennþá eftir að tapa leik.

„Við vissum það fyrir fram að mótið vinnst ekki í september eða október, þetta er ákveðið langhlaup. Það er langur vegur fram undan en það er enn þá nægur tími til þess að bæta sig en heilt yfir er ég nokkuð sáttur með þann stað sem liðið er á í dag,“ sagði Anton í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert