Stórsigur Svía og Þjóðverjar komast ekki á ÓL

Svíinn Carin Stromberg skýtur að marki Þjóðverja í leiknum í …
Svíinn Carin Stromberg skýtur að marki Þjóðverja í leiknum í morgun. AFP

Svíar unnu stórsigur á Þjóðverjum í morgun, 35:24, í leiknum um sjöunda sætið á heimsmeistaramóti kvenna í Kumamoto í Japan og tryggðu sér með því síðasta sætið í undankeppninni fyrir Ólympíuleikana í Tókýó.

Þýska liðið situr hins vegar eftir í áttunda sætinu eftir að hafa staðið vel að vígi lengi vel og ólympíudraumurinn er úti á þeim bænum.

Þjóðverjar komust fjórum mörkum yfir snemma leiks en Svíar áttu frábæran endasprett í fyrri hálfleik og voru með 18:13 forystu að honum loknum. Eftir það var aldrei spurning um sigurvegar því sænsku konurnar voru komnar ellefu mörkum yfir um miðjan síðari hálfleik.

Isabelle Gullden skoraði 7 mörk fyrir Svía, öll af vítalínunni, og Linn Blohm skoraði 5. Markvarsla sænska liðsins var 40 prósent í leiknum. Alicia Stolle skoraði 6 mörk fyrir Þjóðverja.

Svartfjallaland vann Serbíu, 28:26, í leik nágrannaþjóðanna um fimmta sæti mótsins sem fara báðar í ólympíu-undankeppnina. Staðan í hálfleik var 13:12 fyrir Svartfellinga sem voru yfir allan seinni hálfleikinn. Milena Raicevic og Ema Ramusovic skoruðu 4 mörk hvor fyrir Svartfjallaland en Jovana Stoiljkovic skoraði 6 mörk fyrir Serbíu.

Undanúrslitaleikur Rússlands og Hollands hefst klukkan 8.30 að íslenskum tíma og undanúrslitaleikur Noregs og Spánar klukkan 11.30.

Þar með er komin endanleg mynd á hvernig undanriðlarnir fyrir Ólympíuleikana verða skipaðir:

1. riðill: Svíþjóð, Argentína, Senegal og silfurlið HM.

2. riðill: Serbía, Kína, Ungverjaland og bronslið HM.

3. riðill: Svartfjallaland, Rúmenía, Norður-Kórea og liðið í 4. sæti á HM.

Tvö efstu lið í hverjum undanriðlanna vinna sér sæti á Ólympíuleikunum 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert