„Förum sáttir í jólafríið“

Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við sína menn.
Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við sína menn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er rosalega ánægður. Við náðum að snúa þessu okkur í vil og vinna leikinn. Þetta var auðvitað mjög erfitt, við erum að spila við frábært lið á erfiðum útivelli og okkar aðalsmerki, vörn og markvarsla var kannski ekki eins og við erum vanir í kvöld og leikurinn því kannski erfiðari fyrir vikið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals eftir 33:31 sigur á Íslandsmeisturum Selfoss á Selfossi í kvöld.

„Selfoss hafði tökin á þessu lungann úr leiknum en við vorum aldrei langt undan. Við vorum ekkert að spila illa og ég var ekki óánægður með fyrri hálfleikinn. Þegar við fórum að taka Hauk [Þrastarson] úr umferð á lokakaflanum þá riðlaðist þeirra leikur mikið og við gengum á lagið. Daníel fór líka að verja meira í markinu hjá okkur og það munaði um það í lokin,“ bætti Snorri Steinn við.

„Við erum búnir að vinna átta leiki í röð í deildinni og erum á góðum stað. Byrjunin var erfið á mótinu þó að við höfum ekki tapað leikjum illa. Ég held að við getum mjög vel við unað og við förum sáttir í jólafríið þó að ég gráti auðvitað eitthvað af töpuðum stigum,“ sagði Snorri Steinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert