Hvíta-Rússland enn í baráttunni

Hvít-Rússinn Artsem Karalek sækir að marki Tékka í leiknum í …
Hvít-Rússinn Artsem Karalek sækir að marki Tékka í leiknum í dag. AFP

Hvíta-Rússland vann 28:25-sigur á Tékklandi í Vín í fyrsta milliriðlinum á Evrópumóti karla í handknattleik rétt í þessu. Mikið var í húfi fyrir bæði lið en hvorugt tók með sér stig inn í milliriðilinn og þá töpuðu þau bæði fyrsta leik sínum þar.

Hvít-Rússar töpuðu fyrir Þjóðverjum í fyrsta leik milliriðilsins og Tékkar gegn Spánverjum. Leikurinn í dag var því ansi mikilvægur í baráttunni um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna í Tókýó í sumar.

Leikurinn var lengst af hnífjafn og munurinn aldrei meiri en þrjú mörk en það voru hins vegar alltaf Hvít-Rússar sem náðu forystunni. Tékkar jöfnuðu nokkrum sinnum metin, síðast í stöðunni 22:22, áður en Hvíta-Rússlandi tók af skarið og skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkum leiksins til að innsigla sigurinn. Mikita Vailupau var markahæstur Hvít-Rússa með sex mörk en þrír leikmenn voru þar næstir með fimm mörk hvor. Hjá Tékkum var Ondrej Zdrahala markahæstur með sjö mörk og næstur var Stanislav Kasparek með sex mörk.

Hinir leikir riðilsins fara fram síðar í kvöld. Spánverjar mæta Austurríki klukkan 17:15 og Króatía mætir Þýskalandi klukkan 19:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert