Króatar sneru taflinu við í lokin

Igor Karacic með boltann í leiknum í kvöld. Hann var …
Igor Karacic með boltann í leiknum í kvöld. Hann var markahæstur og skoraði sigurmarkið. AFP

Króatía vann 25:24-sigur í hnífjöfnum leik gegn Þýskalandi í Vín á Evrópumóti karla í handknattleik í kvöld. Króatar eru því með fullt hús stiga í milliriðli eitt, sex stig, rétt eins og Spánverjar.

Þjóðverjar fóru illa að ráði sínu í kvöld en þeir voru í forystu nánast allan leikinn. Króatía komst í 2:1 í upphafi leiks en eftir það var forystan Þjóðverja alveg þangað til á 57. mínútu. Króatar jöfnuðu þá metin í 24:24 og skoraði svo Igor Karacic sigurmarkið 90 sekúndum fyrir leikslok en bæði lið fóru illa með síðustu sóknir sínar.

Karacic var markahæstur allra með sjö mörk en næstur í liði Króata var Domagoj Duvnjak. Hjá Þjóðverjum voru fjórir leikmenn með fjögur mörk, þeir Tobias Reichmann, Philipp Weber, Timo Kastening og Uwe Gensheimer. Þýskaland er í 3. sæti með tvö stig og mætir Austurríki á mánudaginn en Króatía spilar þá við Tékkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert