Svo lágvaxinn að þeir sáu mig aldrei

Janus Daði Smárason skoraði átta mörk í leiknum og var …
Janus Daði Smárason skoraði átta mörk í leiknum og var markahæstur í íslenska liðinu. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Þetta var virkilega kærkominn sigur og mér fannst við vinna mjög vel fyrir honum í dag,“ sagði Janus Daði Smárason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við RÚV eftir 28:25-sigur liðsins gegn Portúgal í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í dag.

„Við vorum klárir frá fyrstu mínútu og spiluðum mjög klókt. Það skiluðu allir sínu sóknarlega í þessum leik fannst mér og takturinn í öllu liðinu var mjög góður. Það var aðeins meiri kraftur í okkur í dag og þetta var ekki alveg jafn þvingað einhvern veginn, eins og þetta hefur verið. Við komum mjög vel skipulagðir til leiks og vorum beinskeyttir í öllu því sem við vorum að gera. Þetta þarf ekki alltaf að vera flókið og við sýndum það í dag.“

Janus Daði var markahæstur í íslenska liðinu í dag með átta mörk en þrjú þeirra komu af línunni og var leikstjórnandinn duglegur að leysa inn á línu á mikilvægum augnablikum í leiknum.

„Ég er svo lágvaxinn að þeir sáu mig aldrei þegar ég laumaði mér inn á línuna. Það kom þeim alltaf jafn mikið á óvart þegar ég fór inn á línuna en það virkaði,“ bætti leikstjórnandinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert