Það var nánast allt að klikka

Haukur Þrastarson með boltann í dag.
Haukur Þrastarson með boltann í dag. Ljósmynd/Ein­ar Ragn­ar Har­alds­son

„Það var gaman að fá að koma inn á og fá að spreyta sig og komast inn í þetta,“ sagði Haukur Þrastarson, 18 ára landsliðsmaður í handbolta, í samtali við RÚV eftir 28:31-tap fyrir Noregi á EM í dag.

Haukur lék stórt hlutverk í dag, en hann kom snemma inn á af bekknum, eftir skelfilega byrjun. Norðmenn skoruðu sjö fyrstu mörkin. „Mér leið vel á vellinum. Eftir erfiða byrjun náum við að koma okkur inn í þetta, þótt munurinn hafi verið aðeins of stór. Við spilum ágætlega seinni hluta leiks.“

Selfyssingurinn segir nánast allt hafa klikkað í byrjun, en íslenska liðið lék mun betur í seinni hálfleik. 

„Það var nánast allt að klikka og við erum ekki á tánum í byrjun. Við getum ekki leyft okkur það á móti liði sem er eins gott og Noregur,“ sagði Haukur, en hvað var rætt í hálfleik? „Fyrst og fremst að mæta til leiks og þétta vörnina. Við lögðum áherslu á að koma framar á þá og fá stopp. Það tókst og þá kom markvarslan með. Við náðum að saxa aðeins á þetta forskot.“

Haukur segir leikinn vera mikilvægan fyrir sig persónulega. „Maður gerir sín mistök, en maður spilar samt ágætlega. Maður lærir af mistökunum og allar mínútur fara í reynslubankann,“ sagði Haukur við RÚV. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert