Portúgal skaut niður ólympíudraum Íslands

Portúgal vann Ungverjaland og von Íslands um að komast á …
Portúgal vann Ungverjaland og von Íslands um að komast á Ólympíuleikana er orðin að engu. AFP

Möguleikar íslenska karlalandsliðsins í handbolta á að komast á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar eru orðnir að engu eftir að Portúgal vann sannfærandi 34:26-sigur á Ungverjalandi í milliriðli II á EM í Malmö í dag. 

Úrslitin þýða að Ísland getur ekki endað ofar en í fimmta sæti í milliriðli II og á því enga möguleika á að komast í undankeppni leikanna síðar á árinu. 

Með sigrinum tryggði Portúgal sér þriðja sæti riðilsins og leik um fimmta sætið við Þýskaland. Þá fer Portúgal í undankeppni Ólympíuleikanna, ásamt Slóveníu. Ef Slóvenía verður Evrópumeistari og eitt sæti í viðbót losnar í undankeppninni þá verður það annaðhvort Ungverjaland eða lið úr hinum milliriðlinum sem hreppir það.

Portúgal var yfir nánast allan leikinn og var staðan í hálfleik 16:14, Portúgal í vil. Um miðbik seinni hálfleiks komst Portúgal sex mörkum yfir og var ekki að spyrja að leikslokum eftir það. Ef Portúgal hefði bætt við tveimur mörkum í viðbót í lokin hefðu þeir skotið Ungverjaland niður fyrir Ísland á innbyrðis markatölu þjóðanna þriggja — að því gefnu að Ísland myndi vinna Svíþjóð í kvöld.

Belone Moreira skoraði sjö mörk fyrir Portúgal og þeir Zsolt Baloggh og Bence Bánhidi gerðu fimm mörk hvor fyrir Ungverjaland. 

Spánverjar náðu toppsætinu

Spánverjar tryggðu sér toppsæti milliriðils I með 22:22-jafntefli við Króatíu í Vín. Spánverjar voru með 21:16-forskot þegar skammt var eftir en þá skoruðu Króatar sex mörk í röð og komust yfir. Spánn skoraði hins vegar síðasta markið og jafntefli varð niðurstaðan. 

Bæði lið höfðu þegar tryggt sér sæti í undanúrslitunum fyrir leikinn. 

Spánverjar tóku toppsæti milliriðils I.
Spánverjar tóku toppsæti milliriðils I. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert