ÍBV upp að hlið Þórs/KA

Ásta Björt Júlíusdóttir átti afar góðan leik fyrir ÍBV.
Ásta Björt Júlíusdóttir átti afar góðan leik fyrir ÍBV. Ljósmynd/Þórir

ÍBV vann sannfærandi 26:15-sigur á Þór/KA í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. Eyjakonur voru með undirtökin allan leikinn og var staðan í hálfleik 12:5. 

Ásta Björt Júlíusdóttir skoraði sjö mörk fyrir ÍBV og komu fimm af þeim af vítalínunni. Harpa Valey Gylfadóttir og Sunna Jónsdóttir bættu við fimm mörkum hvor. Anna Þyrí Halldórsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Þór/KA, eins og Rakel Sara Elvarsdóttir. 

Martha Hermannsdóttir náði sér ekki á strik fyrir Þór/KA og skoraði aðeins eitt mark úr ellefu skotum og kom það af vítalínunni. Hún brenndi hins vegar af tveimur vítum. 

Liðin eru í sjötta og sjöunda sæti með tíu stig, tveimur stigum frá Haukum sem eru í fjórða sætinu. Það gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni.

ÍBV hefur leikið þrjá leiki í röð án þess að tapa og unnið tvo af þeim, en Þór/KA hefur tapað fjórum í röð og fimm af síðustu sex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert