Hefði verið frábært að hafa VAR til taks

Óskar Bjarni Óskarsson var að vonum sáttur eftir eins marks …
Óskar Bjarni Óskarsson var að vonum sáttur eftir eins marks sigur Valsmanna í Vestmannaeyjum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarþjálfari Vals, var staðgengill Snorra Steins Guðjónssonar, sem átti ekki heimangengt í viðtal eftir leik ÍBV og Vals í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld.

Valsmenn unnu leikinn með einu marki, en það stóð tæpt því Eyjamönnum tókst að koma knettinum í netið undir lokin, en þó líklega sekúndubroti of seint. Lokatölur voru 25:26.

„Það var frábært að landa þessu, það hefði verið frábært að hafa VAR í lokin til að skera úr um þetta. Að sjálfsögðu fannst mér þetta vera réttur dómur en ég er viss um að öllum Eyjamönnum fannst boltinn vera kominn inn. Það hefði verið gaman að skera úr um það með VAR,“ sagði Óskar Bjarni en þar var hann að tala um lokasekúndu leiksins þar sem Elliði Snær Viðarsson taldi sig hafa jafnað metin fyrir Eyjamenn. Boltinn var þó ekki kominn inn, í það minnsta ekki að mati dómara leiksins.

„Þetta var hörkuleikur og það er alltaf frábært að koma hingað, besta mætingin er hérna og á Selfossi og það er gaman að spila hérna. Eyjamenn eru mjög flottir, þeir eiga leikmenn inni líka. Mér finnst þeir útfæra þessa vörn mjög vel og eru með mjög gott lið.“

Spurður um það hvað honum fannst vera munurinn á liðunum í dag sagði hann að það hafi ekki verið mikið.

„Þetta hefði klárlega getað dottið báðum megin, mér fannst það líka í fyrri leiknum, þá unnu þeir með einu, nánast sömu tölur. Þeir voru með frábæra markvörslu í fyrri hálfleik og við með frábæra vörslu í seinni hálfleik. Mér fannst bæði liðin spila góðan varnarleik, mér fannst kannski vanta upp á taktinn sóknarlega hjá ÍBV í seinni hálfleik en þeir skoruðu auðvitað 16 mörk í fyrri hálfleik.“

„Þetta var annars ótrúlegur leikur og það sást alveg að þetta var að fara að enda svona, jafntefli eða eins marks sigur,“ sagði Óskar en það var einnig tilfinninginn sem flestir af þeim stuðningsmönnum, sem mættu að styðja ÍBV, fengu. Mætingin var frábær, nánast full stúka og mikil læti í áhorfendum.

Eyjamenn enduðu fyrri hálfleikinn mjög vel og náðu aldrei að færa þá stemningu inn í seinni hálfleik.

„Mér fannst það nauðsynlegt að byrja seinni hálfleikinn svona, ef þeir hefðu t.d. skorað fyrstu tvö og komið þessu í sex mörk, úti í Eyjum, með alla orkuna í húsinu hefði þetta verið of erfitt. Mér fannst þeir einhvern veginn ekki ná neinum skotum á markið fyrstu 10 mínúturnar. Þetta mjatlaðist í það að verða leikur, vegna þess að við byrjuðum seinni hálfleikinn svona vel.“

Alexander Júlíusson fékk rautt spjald fyrir að fara í andlitið á Fannari Friðgeirssyni þegar hann sótti að vörn Vals í síðari hálfleik, Óskar og Snorri voru ekkert allt of sáttir með það en sáu þeir atvikið vel?

„Mér fannst þetta gerast tvisvar í leiknum, Ýmir fær tvær mínútur í fyrri hálfleik og Alexander rautt í seinni hálfleik, við erum að koma með höndina á móti en mér finnst við ekki vera að fara viljandi í ljótt brot. Þetta var samt sem áður klaufalegt hjá okkur en mér finnst þetta vera tvær mínútur, ekki rautt. Þetta eru þó reyndir og góðir dómarar og ég stend alltaf upp, það eru allir hættir að taka mark á mér.“

Vörn Valsara hélt vel út leikinn og fá mikinn plús fyrir það, en erfitt hefur það eflaust verið að missa út annan af bestu varnarmönnum liðsins.

„Við áttum Þorgils inni, hann hafði spilað lítið í leiknum, við erum oftast með hann og Ými í þristunum en í þessum leik voru Alexander og Ýmir flottir í þristunum. Það var ekki auðvelt fyrir Þorgils að koma inn því vörnin hafði verið rosalega góð þarna. Að eiga við Kára er auðvitað fjórtán manna verk, hann er frábær á línunni, mér fannst við ná að komast inn aftur, sem var ekki öruggt.“

Finnur Ingi Stefánsson hefur oftar en ekki verið með betri nýtingu en í þessum leik. Petar Jokanovic var að lesa hann vel og varði fimm skot í það minnsta frá honum, Finnur hló þó mest eftir leik en hann skoraði sigurmarkið.

„Þetta snýst um að skora á réttum tíma, hann var með sjö skot og tvö mörk á kafla, ég sá að Petar var góður á móti FH í hornunum. Það var gott fyrir Finn að setja síðasta markið, en ég veit að hann er ekki ánægður, hann vildi gera betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert