Landsliðsmaður á leið til Kolding?

Ágúst Elí Björgvinsson mun yfirgefa sænsku meistaranna í sumar þegar …
Ágúst Elí Björgvinsson mun yfirgefa sænsku meistaranna í sumar þegar samningur hans rennur út. Ljósmynd/Sävehof

Ágúst Elí Björgvinsson, landsliðsmaður Íslands í handknattleik, er á leið til danska úrvalsdeildarfélagsins Kolding en það eru danskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Ágúst Elí er 24 ára gamall og samningsbundinn sænsku meisturunum í Sävehof.

Samningur hans við sænska liðið rennur hins vegar út í sumar og markmaðurinn gaf það út á dögunum að hann ætlaði sér að yfirgefa herbúðir sænska liðsins. Ágúst Elí hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár en fór ekki með liðinu á EM nú í janúar.

Tveir Íslendingar eru samningsbundnir Kolding í dag, þeir Árni Bragi Eyjólfsson og Ólafur Gústafsson, en Ólafur er uppalinn í Hafnarfirði hjá FH líkt og Ágúst Elí. Kolding er í tólfta og þriðja neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 10 stig eftir sautján umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert