Stutt í gæðin og í skítinn

Guðmundur Árni Ólafsson verst Agli Magnússyni í kvöld.
Guðmundur Árni Ólafsson verst Agli Magnússyni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum að tapa boltanum auðveldlega og gefa þeim auðveld mörk. Við fórum með þetta í sókninni,“ sagði svekktur Guðmundur Árni Ólafsson, leikmaður Aftureldingar, eftir 28:32-tap fyrir FH í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

Afturelding skoraði aðeins eitt mark á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks og það nýttu FH-ingar sér vel. 

„Hann varði eitthvað, en mér fannst við fara með þetta, frekar en FH væri að bæta sinn leik svona mikið. Við þurfum að skoða þetta betur hvað fór úrskeiðis, því það var eitthvað sem fór úrskeiðis hjá okkur.“

Afturelding byrjaði vel og náði mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik. FH var hins vegar mun sterkari í þeim seinni. 

„Við vorum með lausnir við öllu í byrjun leiks, en í seinni hálfleik fór þetta í baklás. Við vitum að það er stutt í gæðin, en við vitum líka að það er stutt í skítinn. Við þurfum ekkert að finna upp hjólið, bara að halda dampi. Við þurfum að halda stöðugleika.“

Afturelding er nú þremur stigum á eftir toppliði Hauka og einu stigi á undan Val sem er í þriðja sæti. 

„Þetta er langt mót. Við þurfum að undirbúa okkur fyrir hörkuleik á móti Val. Við eigum erfitt prógramm og við vissum að við myndum ekki endilega safna inn öllum stigunum í fyrstu fimm umferðunum eftir jól. Við horfum hins vegar upp en ekki niður,“ sagði Guðmundur Árni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert