„Þetta er glatað“

Breki Dagsson kominn framhjá Tandra Má Konráðssyni í leiknum í …
Breki Dagsson kominn framhjá Tandra Má Konráðssyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breki Dagsson, leikmaður Fjölnis, var skiljanlega svekktur eftir tapið gegn Stjörnunni í Grafarvoginum í kvöld í Olís-deildinni í handknattleik. 

Breki skoraði 6 mörk fyrir Fjölni og átti þátt í mörgum fleirum. Lengi vel virtust Fjölnismenn ætla að ná í bæði stigin en það hafðist ekki. Liðinu tókst ekki að skora úr sinni síðustu sókn og Stjarnan fékk tækifæri til að vinna leikinn og nýtti sér það. Sigurmark Tandra Más Konráðssonar kom þegar örfáar sekúndur voru eftir og Stjarnan vann 26:25. Var það í fyrsta skipti sem Stjarnan komst yfir í leiknum.

„Þetta er ógeðslega pirrandi og svekkjandi. Ég held að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem þeir voru yfir í leiknum. Þetta er glatað,“ sagði Breki sem sagðist hafa verið með góða tilfinningu í leiknum. „Tilfinningin var góð allan leikinn. Janúar var góður mánuður sem við nýttum vel í að æfa og spila æfingaleiki. Mér fannst vera fínn bragur yfir þessu en það er ógeðslega súrt þegar eins marks tap er niðurstaðan.“

Fjölnir var með sex marka forskot í fyrri hálfleik en Breka fannst það vera frekar fljótt að fara.

„Við vorum með sex marka forskot í fyrri hálfleik. Mér fannst við byrja að gefa eftir á lokamínútum fyrri hálfleiks því við hefðum getað verið með 5-7 marka forskot í hléi en forskotið var fjögur mörk. Það hélt áfram í byrjun seinni og við misstum forskotið fljótt niður. Þeir eru með gott lið og handbolti er leikur áhlaupa. En við gerðum vel í að komast aftur yfir. Við vorum með tveggja marka forystu þegar fjórar eða fimm mínútur voru eftir,“ sagði Breki sem var mjög klókur í sókninni hjá Fjölni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert