Naumur sigur Stjörnunnar í Vestmannaeyjum

Ída Bjarklind Magnúsdóttir sækir að vörn ÍBV í leiknum í …
Ída Bjarklind Magnúsdóttir sækir að vörn ÍBV í leiknum í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stjörnukonur sóttu tvö stig til Vestmannaeyja þegar liðið mætti ÍBV í 5. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik. Stjarnan komst því upp fyrir ÍBV í töflunni. Eva Björk Davíðsdóttir var frábær í liði Stjörnunnar og skoraði 8 mörk, sex þeirra í fyrri hálfleik, hún átti síðan mikinn þátt í örugglega öðrum átta mörkum. Lokatölur 29:30 í svakalegum leik.

Karolina Olszowa klikkaði á lokaskotinu þegar átta sekúndur voru eftir en Eyjakonur spiluðu síðustu mínútuna tveimur mönnum fleiri.

ÍBV fór mun betur af stað í leiknum og flæddi sóknarleikur liðsins vel fyrstu mínúturnar. Lítið vesen var á spilinu og liðið fékk mörg góð færi. Staðan var 10:8 eftir 15 mínútna leik.

Stjörnukonur fóru þá að spila af meiri krafti og taka meira frumkvæði varnarlega. Þetta varð til þess að ÍBV tapaði boltanum nánast í hverri einustu sókn, þau skot sem rötuðu á mörkið voru flest varin af Tinnu Húnbjörgu sem kom inn í markið.

Stjarnan spilaði einnig glimrandi sóknarleik seinni hluta fyrri hálfleiks þar sem Eva Björk Davíðsdóttir átti þátt í nánast öllum mörkum gestanna, hún skoraði sex mörk í fyrri og lagði upp önnur sex. Stjarnan leiddi 12:18 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn á mjög löngum sóknum og skiluðu þær oftar en ekki mörkum, það náði þó hámarki þegar þær tóku 110 sekúndna sókn áður en þær fengu nýja sókn þegar Sigurður Bragason lét aðeins of vel í sér heyra á bekknum.

Þetta upplegg Stjörnunnar gekk mjög vel og skilaði nóg af mörkum. Tinna Húnbjörg hélt áfram að verja vel í marki Stjörnunnar og lokaði á það að Eyjakonur gætu minnkað muninn niður í minna en 5 mörk. Staðan var 21:26 þegar Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé þegar tíu mínútur voru eftir.

Tinna meiddist lítillega og eftir það náðu Eyjakonur að minnka muninn niður í þrjú mörk, þær fengu gullið tækifæri til að minnka muninn enn frekar sem fór í súginn og þá virtust góð ráð vera dýr.

ÍBV náði að minnka muninn í 29:30 þegar mínúta var eftir, Stjörnukonur voru þá einnig tveimur færri þegar þær fóru í sókn. Rakel Dögg tók leikhlé þegar 39 sekúndur voru eftir og setti upp sókn gestanna. Þær töpuðu boltanum strax og Eyjakonur fóru í sókn sem klikkaði.

ÍBV 29:30 Stjarnan opna loka
60. mín. Sunna Jónsdóttir (ÍBV) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert