„Áhorfendur gáfu aukakraft“

Jónatan (lengst til hægri) og hans menn voru laufléttir þegar …
Jónatan (lengst til hægri) og hans menn voru laufléttir þegar sigurinn var í höfn í kvöld. Ljósmynd/Þórir

Jónatan Magnússon, þjálfari KA í Olís-deild karla í handbolta, var kampakátur eftir að KA hafði lagt topplið Hauka í kvöld. Sigur KA kom Akureyrarliðinu í 3. sæti deildarinnar. 

Áhorfendur voru á pöllunum í fyrsta skipti í langan tíma og það var boðið upp á hita- og spennuleik, sem KA vann 30:28. 

„Ég held að það að fá áhorfendur í húsið hafi gert liðunum auðveldara að gíra sig upp og þess vegna var kannski meiri hiti en stundum í vetur“ sagði Jónatan inntur eftir því sem fram fór á vellinum og á hliðarlínunni. „Það var hart barist hjá báðum og hörkuleikur. Við þurftum alltaf góðan leik til að leggja Haukana og gáfum allt í þetta. Haukar eru með frábært lið og okkur tókst að hægja á þeim. Byrjunin hjá okkur var frábær og svo voru menn að sýna nokkuð heilsteypta frammistöðu og margir að leggja í púkkið með góðu framlagi. Við höfum ekki alltaf skilað svona góðri heildarframmistöðu en náð úrslitum. Nú þurfti bara alvöru frammistöðu, enginn kannski með toppleik en allir að skila sínu.“  

Haukar eru engin lömb að leika sér við og þeir voru sífellt að narta í hælana á ykkur en náðu aldrei að jafna leikinn. 

„Eðlilega voru þeir að reyna að ná okkur en það sem mér finnst gott er að mér fannst mínum leikmönnum aldrei líða neitt illa. Það er gríðarlega mikið sjálfstraust í liðinu. Mér fannst aldrei koma upp einhver paník eða einbeitingarleysi. Við héldum okkar uppleggi þegar þeir voru á hælum okkar og svo skilaði trúin og leikgleðin miklu. Áhorfendur gáfu svo aukakraft. En heilt yfir þá var frammistaða liðsins góð. Nú förum við glaðir á koddann en svo er bara leikur á sunnudaginn. Það verður skemmtilegt að eiga við Framarana“ sagði Jónatan kátur að skilnaði. 

Jónatan Magnússon fer yfir málin.
Jónatan Magnússon fer yfir málin. Ljósmynd/Þórir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert