Látum markmenn Aftureldingar líta vel út

Halldór Örn Tryggvason
Halldór Örn Tryggvason Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs var að vonum svekktur eftir 36:24 tap gegn Aftureldingu í 12.umferð Olís deildar karla nú í kvöld: „Það sem hefur verið okkar aðalsmerki í vetur er vörnin og markvarsla og það klikkaði í dag. Afturelding gerir vel og við erum oft seinir til baka og getum sjálfum okkur um kennt.“

Í byrjun seinni hálfleiks minnkuðu heimamenn muninn í tvö mörk en eftir það gekk afar brösuglega að skora mörk og Afturelding leit aldrei til baka. Aðspurður um þetta sagði Halldór:

„Við þurfum að skoða þetta betur og sjá hvað gerist. Við reynum að fara í sjö á sex, breyta aðeins til og reyna að krydda þetta upp. Við erum að æfa vel og þetta er enn og aftur bara hausinn á mönnum.“

„Við erum með 22 klikkuð færi, við erum að láta markmenn Aftureldingar líta vel út í dag. Með lélegum skotum. Klikkum á þremur vítum sem er allt of dýrt í leik sem þessum.“

Mikið hefur verið talað um leikjaálagið í deildinni undanfarið. Aðspurður um hans skoðun á þeim málum sagði Halldór: 

„Þór Akureyri var eina félagið sem sendi inn póst á HSÍ og viðraði áhyggjur af þessu. Bentum góðfúslega á þetta og sendum inn tillögur um hvað mætti gera en það strandaði þar hjá HSÍ. Þetta álag er ekkert eðlilegt en lítið hægt að breyta því núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert