Markið sem aldrei var skorað mun standa

Ásdís Guðmundsdóttir og samherjar í KA/Þór halda stigunum úr Stjörnuleiknum.
Ásdís Guðmundsdóttir og samherjar í KA/Þór halda stigunum úr Stjörnuleiknum. mbl.isEggert Jóhannesson

KA/Þór hefur verið úrskurðaður sigur í leiknum umdeilda við Stjörnuna í Olísdeild kvenna í handknattleik og dómstóll HSÍ hafnar því að leikur liðanna verði endurtekinn.

Eftir leikinn kom í ljós að eitt mark sem skráð hafði verið á KA/Þór í fyrri hálfleik hafði aldrei verið skorað. Það gerðist á þann hátt að mark Stjörnunnar var skráð á KA/Þór. Eftir ábendingu frá leikmanni um að eitt mark vantaði hjá Stjörnunni á markatöfluna var því bætt við en ekkert mark tekið af KA/Þór í staðinn.

Í leikslok stóð 27:26 fyrir KA/Þór og dómararnir skrifuðu athugasemdalaust undir leikskýrsluna með þeim lokatölum. Enginn eftirlitsmaður frá HSÍ var á leiknum.

Stjarnan kærði og krafðist þess að úrslitin yrðu leiðrétt og væru 26:26 en til vara var gerð krafa um að leikurinn yrði endurtekinn.

Niðurstaða dómstólsins

Bjarki Þór Sveinsson dæmdi málið fyrir hönd dómstóls HSÍ og úrskurðarorðin eru á þessa leið:

Hafnað er kröfu Stjörnunnar þess efnis að úrslit leiks Stjörnunnar og KA/Þórs í Olísdeild kvenna frá 13. febrúar 2021 verði breytt. Jafnframt er því hafnað að leikurinn verði endurtekinn.

Með vísan til forsendna málsins telur dómstóllinn rétt að málskostnaður falli niður.

Í niðurstöðum dómsins segir m.a. að samkvæmt ákvæðum laga HSÍ verði mati dómara á því sem gerist á leikvellinum ekki skotið til dómstóls HSÍ. Í þessu máli sé meginúrlausnarefnið hvort undirritun dómara á leikskýrslu með tilgreindri markatölu feli í sér mat á staðreyndum eða ranga beitingu leikreglna. 

Ljóst sé að dómarar leiksins hafi undirritað leikskýrsluna samkvæmt bestu vitund. Þeir hafi eftir bestu samvisku lokið leiknum samkvæmt þeim upplýsingum sem þeir höfðu. Þannig hafi þeir ekki tekið ranga ákvörðun sem dómstóll HSÍ hafi endurskoðunarheimild á. Mistök séu eðlilegur hluti leiksins og hafi sem slík áhrif á úrslit leikja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert