„Náðum aldrei almennilegu áhlaupi á þá“

Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH.
Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH. Kristinn Magnússon

Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, segir liðið hafa þurft að standa í eltingaleik í síðari hálfleiknum í 26:33 tapi gegn Val í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld.

Staðan í hálfleik var 15:15, en í þeim síðari tóku Valsmenn yfir. „Við spiluðum fínan fyrri hálfleik, ágætis sóknarleik og fengum markvörslu. Við ætluðum að laga vissa hluti varnarlega í hálfleik, það gekk ekki. Þeir skoruðu úr flestum sínum uppstilltu sóknum og við lentum í því að elta. Þeir voru bara klókir út leikinn. Við náðum aldrei almennilegu áhlaupi á þá,“ sagði Ásbjörn í samtali við mbl.is að leik loknum.

Mikið leikjaálag í Olísdeildinni hefur verið í umræðunni undanfarið en Ásbjörn sagði leikmenn FH í það minnsta ekki setja það fyrir sig.

„Það er bara skemmtilegt. Þetta er það sem við viljum og við vorum búnir að æfa í einhverja sex, sjö eða átta mánuði og varla búnir að spila neina leiki þannig að það er það sem við viljum gera, spila leiki. Æfingarnar á milli leikja eru þá aðeins rólegri og færri en menn þurfa að mæta klárir í leikina.

Nú snýst þetta meira um það að maður undirbúi sig vel undir leiki, hugsi vel um sig og mæti klár í leikina. Leikjaálagið er ekkert sem við stjórnum. Við höfum gaman af því að spila handbolta og viljum spila sem flesta leiki,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert