Hergeir og Ragnar skoruðu 18 mörk í jafntefli KA og Selfoss

Hergeir Grímsson sækir að Akureyringum í KA-heimilinu í kvöld.
Hergeir Grímsson sækir að Akureyringum í KA-heimilinu í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Selfoss áttust við í KA-heimilinu í kvöld í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í þrettándu umferð deildarinnar.

Eins og allir leikir í deildinni núna var þessi mjög mikilvægur. Einn sigur getur komið liðum upp um nokkur sæti þar sem flest liðin eru í þéttum hnapp um miðbik deildarinnar. Sigurlið kvöldsins gæti komið sér upp í þriðja sætið. Fór svo að lokum að liðin skildu jöfn 24:24 eftir mikla spennu á lokamínútunum. 

Fyrri hálfleikur var jafn þótt Selfyssingar væru yfir lengstan hluta hans. Hergeir Grímsson var í miklu stuði hjá Selfyssingum og skoraði hann bara þegar honum datt það í hug. Ragnar Jóhannsson gerði svipaða hluti en var ekki alveg jafn markagráðugur. Samtals voru þeir komnir með tíu mörk í hálfleik en þá stóð 13:11 fyrir Selfoss. Vörn KA var mjög upptekin við að passa hinn baneitraða línumann, Atla Ævar Ingólfsson og fengu því Hergeir og Ragnar að skjóta óáreittir að marki KA. 

Lítið gekk hjá KA í sókninni og var Vilius Rasimas að verja frá þeim úr ágætis færum. KA-menn gátu því verið nokkuð sáttir með að vera bara tveimur mörkum undir í hálfleik en samt brenndi Jóhann Geir Sævarsson af víti þegar leiktíminn var liðinn. 

Það sama var uppi á teningnum í byrjun seinni hálfleiks. Selfoss yfir, Hergeir og Ragnar að skora og Vilius að verja. En svo mætti Árni Bragi Eyjólfsson til leiks. Hann hafði ekki sést allan fyrri hálfleikinn og ákvað að vera með. KA komst einu marki yfir um miðjan hálfleikinn, 18:17 en síðan var bara jafnt á öllum tölum upp í 23:23 og lokamínútan rann upp. Árni Bragi Eyjólfsson kom KA í 24:23 þegar hálf mínúta var eftir. Það var svo Hergeir Grímsson sem kórónaði leik sinn með lokamarkinu. Hans ellefta mark og liðin skildu jöfn 24:24 í skemmtilegum og spennandi leik. 

Sem fyrr segir var Hergeir Grímsson með ellefu mörk fyrir Selfoss en Ragnar Jóhannsson skoraði sjö. Þeir tveir voru allt í öllu hjá gestunum en Vilius Rasimas var ágætur í markinu.  

Frammistaða KA-manna var í heildina ágæt. Árni Bragi steig upp í seinni hálfleiknum ásamt markverðinum Nicholas Satchwell en annars var Jón Heiðar Sigurðsson öflugastur hjá KA. 

KA 24:24 Selfoss opna loka
60. mín. KA tekur leikhlé Það er 29:16 á klukkunni og gera má ráð fyrir að hvort lið fái eina sókn til að moða úr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert