Snýr aftur í Mosfellsbæinn

Árni Bragi Eyjólfsson mun klæðast treyju Aftureldingar á ný næsta …
Árni Bragi Eyjólfsson mun klæðast treyju Aftureldingar á ný næsta vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Handknattleiksmaðurinn Árni Bragi Eyjólfsson mun leika með Aftureldingu á ný á næsta keppnistímabili á Íslandsmótinu eftir árs dvöl hjá KA. 

Afturelding greinir frá þessu á Facebook í kvöld og þar kemur fram að Árni geri þriggja ára samning við Aftureldingu.

Árni er uppalinn Akureyringur en gekk í raðir Aftureldingar þegar hann fluttist búferlum með foreldrum sínum og hóf meistaraflokksferilinn með Aftureldingu. Var hann í mörg ár einn marksæknasti leikmaður liðsins og ætti að styrkja lið Aftureldingar verulega. 

Árni hefur einnig leikið með Kolding í Danmörku og var þar tímabilið 2019-2020. Hann hefur reynst liði KA vel í vetur og skorað 84 mörk í 14 leikjum. Er hann markahæsti leikmaður KA á tímabilinu sem nú stendur yfir og getur leikið hvort heldur sem hornamaður eða skytta hægra megin.

KA-menn verða ekki illa mannaðir í þeim stöðum á næsta tímabili því þeir tilkynntu á dögunum að í sumar myndu bæði Einar Rafn Eiðsson og Óðinn Þór Ríkharðsson ganga í raðir félagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert