Jafntefli gegn Slóveníu og Ísland úr leik

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik gerði 21:21 jafntefli við Slóveníu í síðari leik liðanna á Ásvöllum í kvöld í umspili um sæti á HM 2022. Slóvenía er þar með komið á HM eftir að hafa unnið fyrri leikinn í Slóveníu með 10 mörkum.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með og var íslenska vörnin afskaplega föst fyrir auk þess sem Elín Jóna Þorsteinsdóttir var frábær í marki liðsins og varði sex skot í fyrri hálfleiknum. Hinu megin var Amra Pandzic sömuleiðis afar sterk í marki Slóveníu og varði samtals 10 skot í fyrri hálfleik.

Ekki var mikið skorað til að byrja með og var staðan 3:3 eftir 17 mínútna leik. Eftir það var íslenska liðið með undirtökin og náði mest þriggja marka forystu í fyrri hálfleiknum þegar Ragnheiður Júlíusdóttir kom  liðinu í 7:4.

Eftir það tóku þær slóvensku aðeins við sér og fóru að finna betri leiðir framhjá Elínu Jónu. Eftir að Ísland hafði komist í 8:6 skoraði Slóvenía síðustu þrjú mörk fyrri hálfleiksins og tók þannig forystuna í fyrsta skipti í leiknum.

Staðan í hálfleik því 8:9, Slóveníu í vil.

Íslenska liðið mætti áræðið til leiks í síðari hálfleiknum og náði fljótt forystunni að nýju. Ísland komst í 14:12 og svo 15:13 um miðjan síðari hálfleikinn.

Síðari hálfleikurinn þróaðist þó á svipaðan hátt og sá fyrri þar sem Slóvenía náði að snúa taflinu sér í vil um tíma, 15:17. Íslenska liðið var þó ekki á því að gefast upp og það sem eftir lifði leiks var áfram gífurlegt jafnræði með liðunum.

Það fór enda svo að leikurinn endaði með jafntefli, 21:21, eftir að Ragnheiður skoraði úr vítakasti á lokasekúndunni.

Íslenska liðið lék á löngum köflum mjög vel, sérstaklega varnarlega, en á stundum vantaði herslumuninn í sóknarleikinn þar sem tapaðir boltar voru nokkuð margir og skot tekin á vitlausum augnablikum.

Ragnheiður var markahæst Íslendinga með fimm mörk. Í liði Slóveníu var stórskyttan Tjasa Stanko öflug með átta mörk, og var sá leikmaður sem góð íslensk vörn átti helst í erfiðleikum með.

Næst á dagskrá hjá íslenska liðinu er undirbúningur fyrir EM 2022, sem fer fram í nóvember á næsta ári í Slóveníu, Norður-Makedóníu og Svartfjallalandi.

Ísland 21:21 Slóvenía opna loka
60. mín. Slóvenía tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert