SönderjyskE eygir von um sæti í undanúrslitum

Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark í mikilvægum sigri.
Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark í mikilvægum sigri. Ljósmynd/SönderjyskE

Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark fyrir SönderjyskE þegar liðið heimsótti Bjerringbro-Silkeborg í 1. riðli dönsku úrslitakeppninnar í handknattleik í dag.

Leiknum lauk með 29:27-sigri SönderjyskE sem leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 16:12.

SönderjyskE er með 4 stig í þriðja sæti riðilsins, tveimur stigum minna en Bjerringbro-Silkeborg þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni.

SönderjyskE vann fyrri leik liðanna í 1. riðli, 32:28, og er því með betri innbyrðisviðureign á Bjerringbro-Silkeborg fyrir lokaumferðina.

SönderjyskE þarf því að vinna Kolding í lokaumferðinni og treysta á að Bjerringbro-Silkeborg tapi fyrir GOG til þess að komast áfram í undanúrslitin.

GOG vann fyrr í dag 32:29-sigur gegn Kolding þar sem Viktor Gísli Hallgrímsson varði sex skot í marki GOG en Ágúst Elí Björgvinsson varði níu skot í marki Kolding.

GOG er með 11 stig í efsta sæti riðilsins og komið áfram í undanúrslitin en Kolding á ekki möguleika að fara áfram þar sem liðið er með 2 stig í neðsta sæti 1. riðils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert