„Dálítið furðuleg tilfinning“

Alexander (15) lætur finna fyrir sér í leiknum í kvöld. …
Alexander (15) lætur finna fyrir sér í leiknum í kvöld. Vinstra megin við hann er Einar Þorsteinn Ólafsson (17). mbl.is/Unnur Karen

Varnarjaxlinn Alexander Júlíusson segir það vera furðulega tilfinningu að vera svekktur yfir eins marks tapi gegn Lemgo. 

Alexander lék vel í öflugri vörn Vals í leik liðanna í Evrópubikarnum á Hlíðarenda í kvöld. Var hann ekki ánægður með vörnina hjá Val í þessum leik?

„Jú jú við getum alveg verið ánægðir með varnarleikinn á heildina litið. Það er samt dálítið furðuleg tilfinning að vera drullusvekktur yfir því að tapa með einu marki fyrir Lemgo. Með heppni hefðum við nú bara átt að vinna þennan leik,“ sagði Alexander en Valur var yfir 23:17 þegar um tuttugu mínútur voru eftir. 

„Mér fannst botninn detta úr þessu hjá okkur síðasta korterið eða svo. Við fórum að hægja á og urðu dálítið fyrirsjáanlegir. Þeir refsuðu okkur einnig grimmilega fyrir hver mistök sem við gerðum í vörninni. Við vorum einnig klaufar og fengum ódýrar brottvísanir. Við vorum dálítið óagaðir í sókninni og ólíkir sjálfum okkur hvað það varðar.“

Alexander hefur lengi verið á meðal bestu varnarmanna á Íslandsmótinu. Hvernig fannst honum að glíma við leikmenn þýska atvinnumannaliðsins? 

„Það er auðvitað bara mjög gaman að bera sig við leikmenn úr Bundesligunni. Það er ekki hægt að segja annað. Að máta sig við leikmenn í bestu deild heims,“ sagði Alexander þegar mbl.is tók hann tali á Hlíðarenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert