„Ég brást ekki rétt við“

Bjarki Már og Lukas Zerbe fagna sigrinum en þeir skoruðu …
Bjarki Már og Lukas Zerbe fagna sigrinum en þeir skoruðu samtals 14 mörk fyrir Lemgo. mbl.is/Unnur Karen

„Það er risa léttir að hafa unnið vegna þess að við vorum alls ekki góðir í dag,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Lemgo, eftir sigur þýska liðsins 27:26 gegn Val í 2. umferð Evrópudeildarinnar á Hlíðarenda í kvöld. 

„Við gerðum það sem við þurftum til að vinna. Það er svolítið nýtt fyrir liðið að spila í Evrópukeppni. Hjá okkur eru margir leikmenn sem hafa ekki gert það áður og munu mögulega ekki gera aftur [eftir þetta tímabil] vegna þess að Lemgo er ekki eitt af sex bestu liðunum í Þýskalandi. Það er öðruvísi að spila Evrópuleiki. Pressan er meiri, menn fara til annarra landa, liðin spila öðruvísi handbolta en þýsku liðin og dómgæslan er öðruvísi. Vonandi náum við bara að læra af þessu og komast áfam,“ sagði Bjarki Már sem lét mjög að sér kveða og var markahæstur með 9 mörk. 

Valur var yfir 23:17 þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum en þá tókst þýska liðinu loksins að spila betri vörn og fyrir vikið kreisti liðið fram sigur. „Þetta leit ekki vel út. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá skammaðist ég mín aðeins. Mér fannst við lélegir í vörninni og hræðilegir í sókninni. Þar vorum við alltof ragir. Ég veit ekki hvort við létum áhorfendur fara í taugarnar á okkur eða hvað. En okkur tókst alla vega að komast aðeins út úr skelinni og það var nóg til þess að vinna. En þetta var ekki nógu gott og við hefðum átt að bregðast betur við í fyrri hálfleik. Við erum reyndar laskaðir. Okkur vantar besta varnarmanninn, skyttuna hægra megin og annan útileikmann. Svo fékk einn rautt spjald og þá var þetta orðið erfitt þegar okkur vantaði nokkra menn.“

Aðrir verða að meta hvort rautt spjald hafi verið rétt niðurstaða

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, fékk rauða spjaldið á 23. mínútu. Bjarki skoraði þá úr hraðaupphlaupi og lenti á Björgvini sem kom á móti með þeim afleiðingum að Bjarki fékk þungt högg á nefið. Hann telur sig hafa sloppið við nefbrot en sér eftir því að hafa æst sig við Björgvin eftir áreksturinn. 

„Ég veit ekki alveg hvað gerðist því ég sá ekki almennilega hvar hann stóð. Hann fékk rautt spjald og það var niðurstaðan. Ég veit ekkert um hvort það hafi verið réttur dómur. Það voru miklar tilfinningar í þessu og ég hreytti aðeins í hann til baka. Þetta var bara nýtt fyrir mér að koma heim til Íslands og spila og við vorum þar að auki undir. Auk þess var mikið í gangi í leiknum því ég tognaði aðeins í kálfa í upphafi leiks. Ég brást ekki rétt við og fékk réttilega tveggja mínútna brottvísun fyrir það. En hvort hann hafi réttilega verið rekinn út af verða aðrir að meta. Ég átta mig ekki hvaða líkamspartur það var sem hitti mig en eitthvað var það.“

Það var hiti í mönnum á Hlíðarenda í kvöld og …
Það var hiti í mönnum á Hlíðarenda í kvöld og hér virðist Bjarki hafa mikið að segja við annan lettnesku dómaranna. mbl.is/Unnur Karen

Eftir þetta atvik bauluðu einhverjir stuðningsmenn Vals á Bjarka Má sem eftir lifði leiksins. Blaðamaður stenst ekki mátið að hafa orð á því. Hvers lags móttökur eru það? „Það var gaman maður. Ég hef aldrei lent í því. Það var bara skemmtilegt en þessi leikur var ekki skemmtilegur fyrir okkur því við vorum ekki góðir. Sigur er sigur og við reynum að taka það með okkur,“ sagði Bjarki Már Elísson þegar mbl.is ræddi við hann á Hlíðarenda í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert