Fram valtaði yfir Aftureldingu

Stella Sigurðardóttir í baráttunni í Safamýrinni í kvöld.
Stella Sigurðardóttir í baráttunni í Safamýrinni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Tinna Valgerður Gisladóttir var markahæst í liði Fram þegar liðið vann öruggan sigur gegn Aftureldingu í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Framhúsi í Safamýri í 12. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 38:22-sigri Framarar en Tinna Valgerður skoraði átta mörk fyrir Fram.

Framarar byrjuðu leikinn af krafti, komust í 10:4 eftir tuttugu mínútna leik og leiddu 18:8 í hálfleik. Afturelding var aldrei líkleg til þess að snúa leiknum sér í vil í síðari hálfleik og Framarar fögnuðu öruggum sigri.

Emma Olsson skoraði sjö mörk úr sjö skotum fyrir Framara. Þá átti Hafdís Renötudóttir stórleik í marki Framara, varði 22 skot og var með 50% markvörslu. Hjá Aftureldingu var Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir markahæst með sex mörk.

Framarar eru með 21 stig í efsta sæti deildarinnar og hafa fimm stiga forskot á Val sem er í öðru sætinu en Valur á leik til góða á Fram. Afturelding er án stiga í neðsta sætinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert