Stórleikur Díönu dugði ekki til

Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, lék einu sinni sem áður vel með liði sínu Sachsen Zwickau þegar það mátti þola 28:34-tap fyrir Blomberg-Lippe í þýsku 1. deildinni í dag.

Díana Dögg skoraði sjö mörk og gaf eina stoðsendingu að auki fyrir Zwickau og var þar með markahæsti leikmaður liðsins og næstmarkahæst í leiknum.

Zwickau, sem hélt sæti sínu í efstu deild naumlega á síðasta tímabili, hefur ekki farið vel af stað á tímabilinu og er í næstneðsta sæti, 13. sæti, án stiga eftir þrjá leiki.

Díana Dögg hefur ekki látið það á sig fá og haldið sínu striki með góðri spilamennsku enda var hún til að mynda valin í lið annarrar umferðar deildarinnar á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert