Valur ekki í vandræðum með nýliðana

Sara Sif Helgadóttir var með 50 prósent markvörslu í dag.
Sara Sif Helgadóttir var með 50 prósent markvörslu í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Valur vann öruggan 27:18-sigur á nýliðum Selfoss þegar liðin mættust í 2. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Selfossi í dag og tyllti sér þar með á topp deildarinnar.

Jafnræði var með liðunum stærstan hluta fyrri hálfleiks en eftir að Selfoss minnkaði muninn niður í 9:7 skoraði Valur fjögur mörk í röð og herti enn tökin undir lok hálfleiksins.

Staðan í leikhléi 14:8, Valskonum í vil.

Í síðari hálfleik gengu gestirnir enn frekar á lagið og unnu að lokum þægilegan níu marka sigur.

Með sigrinum fer Valur upp fyrir Stjörnuna á topp deildarinnar þar sem liðið er með 4 stig að loknum tveimur leikjum, líkt og Stjarnan.

Roberta Ivanauskaité fór á kostum í liði Selfoss og skoraði 11 mörk, eða 61 prósent af mörkum liðsins.

Cornelia Hermansson varði þá 11 skot í marki liðsins og var með tæplega 29 prósent markvörslu.

Markahæst í liði Vals var Elís Rósa Magnúsdóttir með sex mörk.

Sara Sif Helgadóttir fór á kostum marki liðsins þar sem hún varði 12 skot af þeim 24 sem hún fékk á sig og var því með 50 prósent markvörslu.

Mörk Selfoss: Roberta Ivanauskaité 11, Katla María Magnúsdóttir 4, Rakel Guðjónsdóttir 2, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 1.

Var­in skot: Cornelia Hermansson 11

Mörk Vals: Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 3, Sara Dögg Hjaltadóttir 3, Auður Ester Gestsdóttir 3, Hildur Björnsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 2, Mariam Eradze 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1.

Var­in skot: Sara Sif Helgadóttir 12.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert