Hefði líklega verið skemmtilegra að horfa bara á leikinn

Rúnar Sigtryggsson í leiknum í kvöld.
Rúnar Sigtryggsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka, var sáttur að hafa náð í stig gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld en lið hans var tveimur mörkum undir þegar mjög lítið var eftir af leiknum. Liðin skildu jöfn, 29:29, í Olís deild karla í handbolta í kvöld í algjörlega mögnuðum handboltaleik.

„Þetta var frábær leikur. Það hefði líklega verið skemmtilegra bara að horfa á þetta. Ég er ánægðastur með að við gáfumst ekki upp og sýndum að hausinn er rétt skrúfaður á. Við stóðumst áhlaupið þeirra, náðum að jafna og stóðumst svo síðustu sóknina. Það er svona það sem ég tek út úr þessu núna og allt annað verður svo afgreitt á gólfinu í næstu viku.“

Stefán Huldar Stefánsson átti magnaða innkomu í mark Hauka um miðjan fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik varði hann hvert skotið á fætur öðru og hélt sínu liði inni í leiknum.

„Hann á stærstan þátt í þessu stigi eins og hann átti stærstan þátt í sigrinum í síðasta leik. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem hann er frábær og það verður að taka tillit til þess að hann var veikur í vikunni sem var ástæðan fyrir því að hann byrjaði ekki. Það var bara algjörlega frábært að sjá frammistöðuna hans í kvöld.

Mér fannst við gefa of mikið eftir. Við gáfum þeim of auðveld mörk og lögðum okkur ekki nægilega mikið fram við að standa vörnina maður á mann. Við vorum að reyna að fiska einhverja ruðninga, ég vil bara ekki sjá það, ég vil bara að menn standi í lappirnar eins og almennilegir menn.

Úr því sem komið var er maður sáttur. Við hefðum átt að fara með forskot inn í hálfleikinn, það er alveg klárt mál. Við slökuðum allt of mikið á í varnarleiknum og það voru allir á þeirri línu að bæta það en við náðum einhvern veginn ekki sama styrkleika í seinni hálfleik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert