Myndskeið: Viktor sýndi Hansen hver ræður

Viktor Gísli fagnar af innlifun í kvöld.
Viktor Gísli fagnar af innlifun í kvöld. Ljósmynd/EHF

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik fyrir franska liðið Nantes er liðið vann 35:28-sigur á danska liðinu Aalborg í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld.

Viktori er lofað hástert á heimasíðu EHF, Handknattleikssambands Evrópu. Í umfjöllun á síðu sambandsins er sagt frá að Viktor hafi átt hve stærstan þátt í sigrinum. Þá sá hann oftar en einu sinni við dönsku stórstjörnunni Mikkel Hansen, er hann var í góðum færum.

Hann varði tvisvar frá Hansen úr dauðafærum snemma leiks og setti tóninn fyrir sitt lið. Þá hrósaði Jérémy Toto, liðsfélagi Viktors, markverðinum í lok leiks. „Viktor var sjóðandi heitur,“ sagði hann m.a. á blaðamannafundi.

Viktor byrjaði sérlega vel og varði fjögur skot á fyrstu tíu mínútunum. Þá varði hann í blálok fyrri hálfleiks og lagði upp mark hinum megin og sá þannig til þess að Nantes var með sex marka forskot í hálfleik, í stað fjögurra. Þá varði hann nokkrum sinnum á mikilvægum augnablikum, þegar Aalborg nálgaðist franska liðið.

Twitter-síða EHF birti myndband af Viktori verja í glæsilega í tvígang frá Hansen á upphafsmínútunum. Viktor sýndi þannig dönsku stórstjörnunni hver ræður. Myndbandið af vörslunum glæsilegu má sjá hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert