Landsliðsmarkvörðurinn ekki alvarlega meiddur

Viktor Gísli Hallgrímsson hefur farið á kostum í Frakklandi.
Viktor Gísli Hallgrímsson hefur farið á kostum í Frakklandi. Ljósmynd/EHF

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður Nantes í Frakklandi og íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, er ekki alvarlega meiddur.

Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is í dag en Viktor Gísli fór meiddur af velli í leik Nantes og Sélestat í frönsku 1. deildinni á sunnudaginn.

Markvörðurinn þurfti að fara af velli á 41. mínútu vegna meiðsla í olnboga en hann missti af byrjun tímabilsins með franska liðinu vegna meiðsla í sama olnboga.

„Ég fór til læknis í gær og það eru engir aukaáverkar á olnboganum sem er mjög jákvætt,“ sagði Viktor í samtali við mbl.is.

„Ég þarf að hvíla þangað til verkurinn fer en þetta ætti ekki að vera neitt alvarlegt,“ bætti Viktor við í samtali við mbl.is.

Viktor Gísli, sem er 22 ára gamall, hefur farið á kostum með Nantes í undanförnum leikjum og verið í lykilhlutverki hjá liðinu sem er í þriðja sæti frönsku 1. deildarinnar með 20 stig eftir tólf umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert