Gamla ljósmyndin: Hefur stýrt tveimur liðum til sigurs

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Eyjamenn fögnuðu á miðvikudaginn sigri á Íslandsmóti karla í handknattleik eftir líflega úrslitarimmu gegn Haukum. 

Þjálfari liðsins Erlingur Richardsson hefur þá gert tvö karlalið að Íslandsmeisturum en hann var við stjórnvölinn hjá Handknattleiksfélagi Kópavogs ásamt Kristni Guðmundssyni þegar HK varð Íslandsmeistari árið 2012. Eini sigur HK á Íslandsmótinu.

Þjálfaraferill Erlings er glæsilegur en hann þjálfaði þýska stórliðið Füchse Berlín árið 2015 og var landsliðsþjálfari Hollands 2017-2022. Erlingi tókst að byggja upp sterkt landslið hjá Hollendingum og koma þeim inn á stórmót en fram að því hafði karlalandsliðið staðið í skugganum af kvennalandsliði Hollands. 

Erlendis hefur Erlingur einnig þjálfað West Wien í Vínarborg í Austurríki og hér heima kvennalið ÍBV, Vals og HK en þjálfaraferillinn hófst árið 1998. Erlingur var auk þess um tíma í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins þegar Aron Kristjánsson stýrði liðinu. 

Erlingur var leikmaður á árum áður og lék lengst af með ÍBV. Var hann línumaður og sérlega klókur varnarmaður sem gat leikið vel framarlega í 5-1 og 3-2-1 vörn. 

Erlingur átti um tíma sæti í íslenska landsliðinu undir stjórn Þorbjörns Jenssonar um aldamótin. Á meðfylgjandi mynd er Erlingur á landsliðsæfingu í Kaplakrika árið 2000 fyrir leiki gegn Makedóníu um sæti á HM í Frakklandi 2001. Myndina tók Kristinn Ingvarsson sem lengi myndaði fyrir blaðið og mbl.is og birtist myndin í íþróttablaði Morgunblaðsins 10. júní 2000. 

Ísland hafði betur gegn Makedóníu og var Erlingur í landsliðshópnum sem fór á HM í Frakklandi. 

Fremst á myndinni er Arnar Pétursson sveitungi Erlings frá Vestmannaeyjum og núverandi landsliðsþjálfari kvenna. Voru þeir nýliðar í landsliðshópnum þegar kom að verkefninu á móti Makedóníu. Saman stýrðu þeir karlaliði ÍBV 2012-2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert