Brasilíu tókst ekki að leggja Sviss að velli

Brasilía og Sviss gerðu 1:1-jafntefli í fyrsta leik liðanna á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í dag en leikið var í Rostov.

Brassarnir fóru vel af stað og náðu verðskuldaðri forystu eftir 20 mínútna leik þegar Phillippe Coutinho skoraði glæsimark utan teigs, sneri boltann laglega í fjærstöngina og inn. Hinir brasilísku héldu áfram að þjarma að Svisslendingum eftir þetta og voru óheppnir að vera aðeins einu marki yfir í hálfleik en eftir hlé átti leikurinn eftir að breytast til muna.

Svisslendingar komu grimmir til leiks í síðari hálfleik og jöfnuðu metin strax á 50. mínútu með skallamarki Steven Zuber eftir hornspyrnu. Eftir þetta var nokkurt jafnræði með liðunum, Brasilía fékk vissulega betri færin og Coutinho var til að mynda nálægt því að skora sitt annað mark er hann skaut rétt framhjá af stuttu færi.

Á lokamínútum leiksins komust bæði Miranda og Roberto Firmino nálægt því að kreista fram sigurmark og komst enginn nær en Renato Augustu en skoti hans, seint í uppbótartíma, var bjargað af marklínu. Brasilíumenn urðu að lokum að sætta sig við jafntefli.

Serbía er því á toppi E-riðils eftir 1:0-sigur á Kostaríka fyrr í dag. Brasilía og Sviss deila 2. og 3. sætinu með eitt stig hvort.

Xherdan Shaqiri fagnar með markaskoraranum Steven Zuber í leiknum gegn …
Xherdan Shaqiri fagnar með markaskoraranum Steven Zuber í leiknum gegn Brasilíu. AFP
Paulinho og Granit Xhaka í baráttunni í Rostov í kvöld.
Paulinho og Granit Xhaka í baráttunni í Rostov í kvöld. AFP
Brasilía 1:1 Sviss opna loka
90. mín. Roberto Firmino (Brasilía) á skalla sem er varinn Þetta var færi! Boltanum er lyft inn á teig og Firmino á fastan skalla að marki. Sommer þarf að hafa fyrir þessu en ver virkilega vel, blakar boltanum til hliðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert