LGBT-stuðningsmenn órólegir í Rússlandi

Stuðningsmenn Englands og Túnis bíða spenntir eftir leik liðanna í …
Stuðningsmenn Englands og Túnis bíða spenntir eftir leik liðanna í Volgograd í kvöld. AFP

Þeir knattspyrnuunnendur, sem eru samkynhneigðir, tvíkynhneigðir eða transfólk og dvelja nú í Rússlandi vegna heimsmeistaramótsins, eru órólegir yfir afstöðu rússneskra yfirvalda gagnvart LGBT-hreyfingunni og kjósa að hafa ekki hátt um kynhneigð sína.

Þetta sagði Di Cunningham í viðtali við Sky Sports í morgun en hún er í Volgograd til að fylgja enska landsliðinu sem mætir Túnis í fyrsta leik liðanna í kvöld.

Cunningham er formaður félagsins Pride in Football sem berst fyrir réttindum stuðningsmanna sem eru samkynhneigðir, tvíkynhneigðir eða transfólk en hún telur marga slíka hafa kosið að ferðast ekki til Rússlands.

„Margir sem tilheyra LGBT-samfélaginu töldu sig ekki geta komið hingað að styðja sín lönd og hafa sagst hafa áhyggjur af fólki eins og mér, sem ákvað að mæta,“ sagði hún við Sky Sports.

Cunningham ferðast alltaf með sérsaumaðan fána en á honum prýðir skjaldamerki Englands í regnbogalitunum. Hún tók hann með sér til Rússlands en þorir þó ekki að sýna hann.

„Ég tók fánann með mér en hef verið hikandi að taka hann út, ég er óróleg yfir ástandinu hérna. Það eru regnbogar á fánanum sem brýtur gegn lögbanni Rússlands gegn samkynhneigðum áróðri.“

Að lokum vonar Cunningham innilega að England komist áfram úr riðlinum, en þó vill hún helst að liðið vinni ekki riðilinn til að forðast ferð til Rostov þar sem fordómar gegn samkynhneigð þykja verri en í Moskvu, þar sem Englendingar spila lendi þeir í 2. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert