Réttlætinu fullnægt í uppbótartíma

Harry Kane reyndist hetja Englendinga er hann skoraði bæði mörkin í 2:1-sigrinum á Túnis í fyrsta leik liðanna í G-riðli heimsmeistaramótsins í Rússlandi en leikið var í Volgograd.

„Þetta eru mikilvæg úrslit og ég er stoltur af liðinu. Þetta er heimsmeistarakeppnin og þú heldur áfram til enda, ég er hæstánægður,“ sagði fyrirliðinn við fjölmiðla eftir leikinn en hann skoraði sigurmarkið í uppbótartíma eftir hornspyrnu.

Túnismenn létu Kane finna fyrir því í leiknum og virtust brjóta nokkrum sinnum á honum inni í vítateig. Hann lét það þó ekki á sig fá og uppskar mikilvægt sigurmark á ögurstundu.

„Við hefðum sennilega getað fengið nokkrar vítaspyrnur, þeir voru duglegir að grípa í okkur í hornspyrnum en svona er fótboltinn. Réttlætinu var kannski fullnægt þegar ég skoraði á fjærstönginni úr hornspyrnu.“

Harry Kane og félagar fagna sigurmarki kvöldsins.
Harry Kane og félagar fagna sigurmarki kvöldsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert