Svíar fara vel af stað

Andreas Granqvist fagnar ógurlega eftir að hafa skorað úr vítaspyrnu.
Andreas Granqvist fagnar ógurlega eftir að hafa skorað úr vítaspyrnu. AFP

Í hádeginu mættust Svíþjóð og Suður-Kórea í F-riðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Leikurinn endaði 1:0 fyrir Svíþjóð með marki úr vítaspyrnu frá Andreas Granqvist. Leikurinn fór fram í Nishnij Novgorod.

Suður-Kórea byrjaði leikinn betur og voru hættulegri framan af án þess þó að skapa sér afgerandi færi. Svíar unnu sig hægt og rólega inn í leikinn og á 20 mínútu fengu þeir algert dauðafæri. Marcus Berg slapp einn í gegn en lét Cho Hyun-woo verja frá sér. Svíar höfðu áfram undirtökin það sem eftir var af fyrri hálfleiknum en tókst ekki að skora.

Svíar héldu áfram að hafa frumkvæðið í seinni hálfleik og sótti af krafti. Pressa Svía skilaði árangri á 65 mínútu þegar Kim Min-Woo's braut klaufalega á Viktor Claesson. Dómari leiksins, Joel Aguilar, sá ekki brotið og lét leikinn ganga áfram. Um það bil 20 sekúndum seinna var leikurinn þó stoppaður að frumkvæði myndbandsdómara og vítaspyrna réttilega dæmd. Úr henni skorað Andreas Granqvist örugglega.

Eftir markið drógu Svíar sig örlítið aftar á völlinn. Suðu-Kórea setti meira púður í sóknarleikinn og á 92. mínútu fékk Suður-Kórea algert dauðafæri þegar Hwang Hee-chan fékk frían skalla inn í teig en boltinn fór fram hjá. Niðurstaðan 1:0 sigur Svía sem eru komnir með þrjú stig ásamt Mexíkóum á toppi F-riðils. Suður-Kórea og Þýskaland eru enn stigalaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert