Alveg sama hvað öðrum finnst

Alfreð Finnbogason, Hannes Þór Halldórsson og Helgi Kolviðsson sátu fyrir …
Alfreð Finnbogason, Hannes Þór Halldórsson og Helgi Kolviðsson sátu fyrir svörum í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert

„Það er engin ein rétt leið til að spila fótbolta,“ svaraði Alfreð Finnbogason á blaðamannafundi í dag þegar hann var spurður út í gagnrýni á íslenska landsliðið.

Lionel Messi sagði Ísland nánast ekki hafa „gert neitt“ í leiknum á laugardag. Rússneski fjölmiðlamaðurinn Vasilij Utkin gagnrýndi spilamennsku íslenska liðsins harðlega eftir 1:1-jafnteflið við Argentínu en Alfreð lætur svona lagað ekki angra sig:

„Það eru margar leiðir að sömu niðurstöðu. Við hefðum getað sótt meira og hann [Messi] hefði verið ánægður, en við tapað 5:0. Við spilum með okkar hætti. Fólk má hafa sína skoðun á því hvernig við spilum en okkur er í raun alveg sama,“ sagði Alfreð.

Alfreð skoraði mark Íslands í leiknum og svaraði öðrum erlendum blaðamanni sem spurði hvort markið hefði breytt miklu fyrir hann?

„Það er stórkostlegt bara að fá að taka þátt í að spila leikinn og hvað þá að skora fyrsta mark Íslands á HM. Þetta er eitthvað sem fylgir manni restina af ævinni. Það eru nokkrir byrjaðir að fylgja okkur á Instagram, ekki eins margir og hjá Rúrik [Gíslasyni], en annars hefur svo sem lítið breyst,“ sagði Alfreð léttur.

Þjálfararnir ræða saman á þýsku

Þýskur blaðamaður vildi fá að heyra um þýsk áhrif í íslenska liðinu, en Alfreð er til að mynda leikmaður Augsburg í Þýskalandi og aðstoðarþjálfarinn Helgi Kolviðsson spilaði þar og þjálfaði.

„Maður lærir sumt af því að spila í Þýskalandi. Til að mynda aga og að koma á réttum tíma á fundi. En við höfum allir spilað í svo mörgum löndum að ekkert eitt land hefur meiri áhrif en önnur. Það er samt svolítið fyndið að heyra þjálfarana; Helga, Guðmund [Hreiðarsson, markmannsþjálfara] og Sebastian [Boxleitner, styrktarþjálfara], rabba saman á þýsku. Þess verður kannski ekki langt að bíða að liðsfundir verði að hluta til á þýsku,“ sagði Alfreð og uppskar hlátur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert