Er sem minnst í símanum út af þessu

Hannes Þór Halldórsson átti frábæran leik gegn Argentínu síðasta laugardag. …
Hannes Þór Halldórsson átti frábæran leik gegn Argentínu síðasta laugardag. Hér svarar hann spurningu á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Eggert

„Ef ég á að segja alveg eins og er þá er ég ekkert að velta mér upp úr því,“ segir Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður um þann áhuga sem frammistaða hans gegn Argentínu í fyrsta leik á HM í knattspyrnu vakti.

Hannes er markvörður Randers í dönsku úrvalsdeildinni en Sören Pedersen, íþróttastjóri félagsins, sagði við danska blaðið BT eftir leikinn á laugardag að hann reiknaði með að tilboð bærust í Hannes eftir frábæra frammistöðu hans. Sjálfur vill Hannes einbeita sér alfarið að heimsmeistaramótinu:

https://www.mbl.is/sport/hm_fotbolta/2018/06/17/faerir_messi_randers_milljonir/

„Ég er bara mjög ánægður með þann stað sem ég er á, hjá mínum klúbbi, og það er góð staða að vera í. Að finna ekki fyrir pressu á að ég þurfi að fara lengra og geta einbeitt mér 100 prósent að því að gera vel hérna. Auðvitað veit maður ef að vel gengur þá geta alls konar dyr opnast, en það er ekki eitthvað sem ég er að stressa mig á. Ef eitthvað gerist þá bara gerist það, en fyrir mig snýst þetta núna um að vera sem minnst í símanum, pæla sem minnst í umheiminum og einbeita mér bara að þessu verkefni,“ sagði Hannes á blaðamannafundi í Kabardinka í morgun.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndina.

Hannes Þór Halldórsson fagnar stiginu gegn Argentínu.
Hannes Þór Halldórsson fagnar stiginu gegn Argentínu. mbl.is/Eggert

Hannes fékk fjölda spurninga, og eins og svo oft snerust nokkrar þeirra um þá staðreynd að hann er ekki bara markvörður heldur einnig kvikmyndagerðarmaður. Saga Hannesar, sem fór úr því að vera hafnað af liði í 3. deild á Íslandi í að verja víti á móti Lionel Messi á HM, er einmitt álitlegt kvikmyndahandrit, eða hvað? Og myndi Hannes vilja gera þá mynd?

„Ég hef verið spurður að þessu nokkrum sinnum. Þetta er auðvitað ótrúlegt hvernig þetta hefur þróast. Þetta er auðvitað löng leið og nokkuð sem ég er mjög stoltur af, en bíómyndapælingar? Það verður bara að koma í ljós. Það verður einhver annar alla vega að taka þann slag,“ sagði Hannes.

Þarf frekar að halda spennunni niðri en að gíra mig upp

Hann var einnig spurður hvað gerði það að verkum að hann virtist einhvern veginn sífellt njóta sín betur eftir því sem sviðið sem spilað væri á væri stærra, og hvort hann hefði ákveðna rútínu fyrir þessa stóru leiki eins og á HM:

„Nei, ég er ekki með neina fasta rútínu eða slíkt. Ég spila þetta svolítið eftir eyranu og hvernig skapi ég er í. Yfirleitt er það þannig að því stærri sem leikirnir verða því spenntari verður maður, og þetta snýst um að halda spennustiginu réttu. Ég þarf frekar að halda því niðri en að gíra mig upp, en einhvern veginn hefur það þróast þannig að það hentar mér vel að spila þessa stóru leiki. Það breytir því ekki að ég þarf að hafa mikið fyrir því að róa taugarnar og koma mér á réttan stað. Síðan er það einhvern veginn þannig þegar leikurinn byrjar að þá smellur þetta og mér gengur vel. Ég hef svo sem enga töfralausn hvað þetta varðar,“ sagði Hannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert