Ástralía komin á blað

Daninn Thomas Delaney og Ástralinn Andrew Nabbout eigast við í …
Daninn Thomas Delaney og Ástralinn Andrew Nabbout eigast við í leiknum í Samara. AFP

Danmörk og Ástralía gerðu 1:1 jafntefli í annarri umferð C-riðils á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Leikurinn fór fram í Samara.

Eftir leikinn eru Danir með fjögur stig en Ástralir eitt, en bæði lið hafa spilað tvo leiki. Frakkland er með þrjú stig og Perú ekkert en viðureign þeirra hefst klukkan 15.00. Í lokaumferðinni leika Danir við Frakka og Ástralir við Perúbúa þannig að riðillinn er galopinn ennþá.

Christian Eriksen kom Dönum yfir á 7 mínútu með góðu skoti eftir laglegan undirbúning Nicolai Jørgensen. Ástralir jöfnuðu metin úr vítaspyrnu á 38. mínútu. Boltinn fór í hendina á Yussuf Poulsen af stuttu færi og eftir að hafa ráðfært sig við myndbandsdómara dæmdi dómari leiksins, Antonio Mateu Lahoz, vítaspyrnu sem Mile Jedinak skoraði úr.

Þrátt fyrir ágætar tilraunir á báða bóga tókst hvorugu liðinu að bæta við marki. Ástralir voru heilt yfir betri aðilinn í leiknum á meðan Danir voru töluvert frá sínu besta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert