Frakkar í sextán liða úrslitin

Kylian Mbappe skaut Frökkum í sextán liða úrslit heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í dag þegar Frakkland vann 1:0 sigur á Perú í Ekaterinburg í C-riðli heimsmeistaramótsins í dag. Mbappé skoraði eina mark leiksins á 34. mínútu eftir laglegan undirbúning Olivier Giroud sem kom inn í byrjunarliðið í staðinn fyrir Ousmane Dembélé.

Perú reyndi að jafna metin í síðari hálfleik og átti Pedro Aquino, miðjumaður Perú, hörkuskot í stöng á 51. mínútu. Þeim tókst hins vegar ekki að skora og lokatölur því 1:0 fyrir Frakka sem eru komnir áfram í sextán liða úrslit keppninnar en Perú er úr leik. Frakkar mæta Dönum í lokaleik sínum í riðlakeppninni 26. júní í Moskvu og þá mætast Ástralía og Perú í Sochi.

Frakkar eru á toppi C-riðils með 6 stig, Danir eru í öðru sæti með 4 stig, Ástralar eru með 1 stig og Perú stigalausir á botninum en bæði Danir og Ástralía geta enn þá farið áfram í sextán liða úrslitin. Liðin í fyrsta og öðru sæti C-riðils mæta liðunum í fyrsta og öðru sæti D-riðils en Ísland leikur í D-riðli heimsmeistaramótsins eins og frægt er orðið.

Íslenska liðið er í öðru til þriðja sæti riðilsins með 1 stig, eins og Argentína. Króatar eru á toppi riðilsins með 3 stig og Nígería er á botninum með ekkert stig. Ísland mætir Nígeríu á morgun í Volgograd klukkan 15 að íslenskum tíma í annarri umferð D-riðils en Argentína og Króatía mætast í dag klukkan 18. 

Kylian Mbappé fagnar sigurmarki sínu í dag ásamt Antoine Griezmann.
Kylian Mbappé fagnar sigurmarki sínu í dag ásamt Antoine Griezmann. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert