Hazard kveikti í Lukaku í hálfleik

Hazard ræddi einslega við Lukaku í hálfleik og það skilaði …
Hazard ræddi einslega við Lukaku í hálfleik og það skilaði sér. AFP

Eden Hazard, fyrirliði belgíska landsliðsins í knattspyrnu ræddi einslega við Romelu Lukaku, framherja Belga í hálfleik í 3:0 sigri liðsins gegn Panama í G-riðli heimsmeistaramótsins í Sochi þann 18. júní síðastliðinn. Staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus en það var allt annað að sjá til belgíska liðsins í síðari hálfleik og Lukaku sem skoraði tvö mörk í leiknum.

„Ég ræddi við Lukaku í hálfleik. Ég sagði honum að við þyrftum á honum að halda,“ sagði Hazard í samtali við belgíska fjölmiðla eftir leikinn. „Hann var í feluleik allan fyrri hálfleikinn og það þurfti einhver að ræða við hann. Við erum með vel mannað lið en það er alltaf erfitt að spila einum færri.“

„Hann þarf að taka meiri þátt í uppspili liðsins, það er mikilvægt fyrir okkur því hann er góður að halda bolta. Um leið og hann kom sér inn í leikinn skoraði hann tvö mörk. Við vitum allir hvað hann getur og núna er hann fullur sjálfstrausts," sagði Hazard að lokum. Belgar mæta Túnis í annarri umferð G-riðil 23. júní í Moskvu en sigur í leiknum tryggir Belgum sæti í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert